Grímur Sæmundsen
„Sérstök áhersla er lögð á að hugsa vel um hag starfsfólks og að byggja upp góðan vinnustað.“
Ágætu hluthafar.
Að baki er umfangsmesta ár í starfsemi Bláa Lónsins hvort sem litið er til veltu, fjölda heimsókna eða fjölda starfsfólks. Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að tryggja að heimsóknin í Bláa Lónið standist væntingar gesta sem margir hverjir hafa ferðast um langan veg. Innleiðing aðgangsstýringar ásamt stækkun baðlóns og lengri opnunartíma eru lykilþættir í því hversu vel hefur tekist til ásamt því ómetanlega starfi sem starfsmenn Bláa Lónsins inna af hendi á degi hverjum.
Framkvæmdir við The Retreat at Blue Lagoon, nýtt 62 herbergja hótel og heilsulind, sem verður tekið í notkun síðla árs 2017, ganga vel. Uppbyggingin er í samræmi við þá stefnu Bláa Lónsins sem nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækis að leita sífellt leiða til að auka enn á fjölbreytileika upplifunar Bláa Lónsins.
Í tengslum við uppbygginguna mun starfsfólki fjölga um 160 og hefur hluti þess þegar hafið störf. Að uppbyggingunni lokinni munu um 700 starfsmenn starfa hjá Bláa Lóninu. Vel hefur gengið að fá nýja starfsmenn til liðs við fyrirtækið. Sérstök áhersla er lögð á að hugsa vel um hag starfsfólks og að byggja upp góðan vinnustað.
Fyrirtækið leggur ríka áherslu á samfélagsábyrgð og á árinu 2016 varði Bláa Lónið rúmum 100 milljónum króna til samfélagsverkefna. Áhersla hefur verið lögð á að styðja við íþrótta- og æskulýðsmál í heimabyggð auk þess að styðja við menningar- og heilbrigðismál. Bláa Lónið er á meðal þeirra 250 fyrirtækja sem undirrituðu yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu í Háskólanum í Reykjavík þann 10. janúar s.l. að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem er verndari verkefnisins.
“Fullnýting Bláa Lónsins á öllum orkustraumum frá orkuverinu í Svartsengi skapar einstakt fordæmi um möguleika á verðmætasköpun sem byggir á fullnýtingu og sjálfbærni.”
Frá upphafi árs 2016 hefur Bláa Lónið veitt sjúkratryggðum á Íslandi psoriasis meðferð Bláa Lónsins, íslenskum heilbrigðisyfirvöldum að kostnaðarlausu. Verkefnið er stærsta einstaka samfélagsverkefni Bláa Lónsins. Fyrirtækið heldur einnig áfram að fjárfesta í rannsóknum á lækningamætti Bláa Lónsins ásamt rannsóknum á lífvirkum efnum.
Umhverfis- og loftslagsmál verða æ mikilvægari í íslensku samfélagi. Bláa Lónið hefur tekið mikilvæg skref í þessum efnum, t.a.m. með því að auka flokkun og draga úr sóun. Hér er um að ræða samstillt verkefni fyrirtækisins og starfsfólks sem hefur tekið virkan þátt í innleiðingu á aukinni umhverfisvitund. Fullnýting Bláa Lónsins á öllum orkustraumum frá orkuverinu í Svartsengi skapar einstakt fordæmi um möguleika á verðmætasköpun sem byggir á fullnýtingu og sjálfbærni.
Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu og sjálfbærni mótast ekki hvað síst af því að fjölga valkostum fyrir ferðamenn um land allt. Bláa Lónið býr yfir verðmætri sérþekkingu á heilsuferðaþjónustu er byggir á endurnýjanlegum jarðvarmaauðlindum. Á undanförnum árum hefur Bláa Lónið fjárfest í verkefnum er byggja á þessum þáttum.
Stjórnendur og eigendur vilja nýta þá þekkingu sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins á undanförnum áratugum og stuðla þannig að frekari framþróun íslenskrar ferðaþjónustu um land allt. Þekking og reynsla arkitekta og upplifunarhönnuða Bláa Lónsins nýtist einnig í þessum verkefnum. Jarðböðin við Mývatn, Fontana á Laugarvatni og fyrirhuguð uppbygging baðstaðar við Urriðavatn hjá Egilsstöðum og í Þjórsárdal eru dæmi um slík verkefni.
Starfsemi Bláa Lónsins byggir á traustum grunni. Við horfum bjartsýn fram á veginn og munum halda áfram að hlúa að og þróa starfsemi Bláa Lónsins ásamt því að leggja okkar af mörkum til að stuðla að jákvæðri upplifun ferðamanna á Íslandi og sjálfbærum vexti ferðaþjónustunnar.