Samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð endurspeglast í gildum Bláa Lónsins

Samfélagsábyrgð er hluti af daglegri starfsemi Bláa Lónsins og viðhorf okkar til samfélagsábyrgðar kristallast í þeim gildum sem starfsmenn Bláa Lónsins hafa sett sér og við vinnum eftir á degi hverjum.

Í gildunum endurspeglast áhersla á umhyggju, virðingu og gleði. Meginverkefni samfélagsábyrgðar eru umhverfis-, loftslags- og öryggismál auk vinnuverndar.

Stefnumótun og markmiðasetning í umhverfismálum var í öndvegi árið 2016 með það að markmiði að stórauka umhverfisvitund og minnka umhverfisáhrif af rekstri Bláa Lónsins.

Stýring umhverfisþátta er stöðugt í þróun og ávallt er verið að leita nýrra leiða til að bæta umhverfisspor Bláa Lónsins og auka skráningu gagna til að fá betra yfirlit árangursvísa í umhverfismálum.

Öryggi gesta, starfsmanna sem og samstarfsaðila er lykilþáttur í stefnu og starfsemi Bláa Lónsins. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á öryggismál og hefur tekið sérstakt tillit til þeirra atriða sem tilgreind eru í ábyrgri ferðaþjónustu.

Bláa Lónið styður einnig við samfélagsverkefni í eftirfarandi málaflokkum:

  • Menningarmál
  • Heilbrigðismál
  • Íþrótta- og æskulýðsmál
  • Umhverfismál

Af þeim félagasamtökum, stofnunum og verkefnum sem Bláa Lónið styður má nefna Íþróttasamband fatlaðra, Sólheima í Grímsnesi, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Bleikan október, Hönnunarmiðstöð Íslands, íþróttafélögin á Reykjanesi,  Reykjanes UNESCO Geopark og uppbyggingu Húsatóftavallar í Grindavík.

Psoriasis meðferð

Stærsta einstaka samfélagsverkefni Bláa Lónsins er að veita psoriasis meðferð Bláa Lónsins án kostnaðar fyrir sjúkratryggða á Íslandi og íslensk heilbrigðisyfirvöld.

Psoriasis meðferð Bláa Lónsins er rekin sem samfélagsverkefni. Fyrirtækið hefur samning við heilbrigðisyfirvöld og nýtur meðferðin viðurkenningar sem viðurkenndur meðferðarvalkostur. Bláa Lónið þiggur ekki greiðslur frá íslenska ríkinu vegna meðferðarinnar, hún er því  íslenska ríkinu og sjúkratryggðum á Íslandi að kostnaðarlausu.

Hjúkrunarfræðingur og húðlæknir Bláa Lónsins stýra meðferðinni. Nokkur fjöldi meðferða er veittur erlendum psoriasis sjúklingum á ári hverju og greiða þeir sjálfir fyrir sinn meðferðarkostnað. Á árinu 2016 komu erlendir psoriasis sjúklingar frá 8 löndum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

Efling ferðaþjónustunnar

Bláa Lónið hefur stutt við verkefni sem miða að því að efla ferðaþjónustuna sem atvinnugrein. Í því samhengi má nefna aðild Bláa Lónsins að Iceland Startup Tourism verkefninu sem miðar að því að efla nýsköpun innan ferðaþjónustunnar. Með stuðningi við Startup Tourism vill Bláa Lónið hvetja til nýsköpunar og aukinna gæða innan greinarinnar og stuðla þannig að jákvæðri upplifun ferðamanna og sjálfbærum vexti ferðaþjónustunnar.

Þá er Bláa Lónið í hópi stofnaðila Íslenska Ferðaklasans. Klasinn er samstarfsvettvangur aðila sem starfa á sviði ferðaþjónustu og í tengdum atvinnugreinum. Hlutverk klasans er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu.

Startup Tourism
Íslenski ferðaklasinn

Start typing and press Enter to search