Helgi Magnússon
„Fyrirtækið nýtur nú margra ára uppbyggingarstarfs á sviði kynningarmála sem það hefur staðið fyrir hér á landi og víða um heim.“
Ágætu hluthafar.
Árið 2016 einkenndist af áframhaldandi vexti, uppbyggingu og velgengni hjá Bláa Lóninu hf. þó svo að ýmsar aðstæður hafi verið erfiðar í rekstri ferðaþjónustu á Íslandi á árinu.
Gengi íslensku krónunnar styrktist um 18% árið 2016 og hafði það mikil áhrif á reksturinn eins og nærri má um geta. Stefna stjórnvalda í gengis- og gjaldmiðlamálum vekur sífellt meiri undrun og veldur vonbrigðum. Þá var 11% virðisaukaskattur lagður á starfsemina frá ársbyrjun.
Það var ærið viðfangsefni að laga starfsemina að þeirri skattlagningu á sama tíma og gengisþróun var starfseminni mótdræg og áhrif mikilla launahækkana á almennum vinnumarkaði komu fram. Um mestu kjarabætur seinni tíma var að ræða, sem út af fyrir sig er mjög ánægjulegt, en hafði mikil áhrif á rekstrarkostnað fyrirtækisins.
Þrátt fyrir þetta gekk rekstur Bláa Lónsins mjög vel á árinu 2016, sjötta árið í röð. Ástæður velgengninnar eru nokkrar. Fyrirtækið naut áframhaldandi vaxtar. Gestafjöldi var 1.123 þúsund sem er 22% aukning milli ára. Árið 2010 var gestafjöldinn 413 þúsund, þannig að aukningin á sex árum er 172%.
Starfsfólki og stjórnendum Bláa Lónsins hefur auðnast að takast á við þennan mikla vöxt og ráða fram úr þeim margþættu viðfangsefnum sem hann hefur haft í för með sér.
Aðgangsstýring hefur verið tekin upp en hún hefur leitt til enn betri upplifunar gesta auk þess sem meiri dreifing heimsókna yfir daginn gerir rekstur fyrirtækisins markvissari. Þá hafa vinsældir Bláa Lónsins stöðugt verið að aukast og nýtur fyrirtækið nú margra ára uppbyggingarstarfs á sviði kynningarmála sem það hefur staðið fyrir hér á landi og víða um heim. BLUE LAGOON ICELAND er nú eitt allra þekktasta vörumerki Íslands – ef ekki það þekktasta.
” Vel hefur gengið að manna stöður hjá fyrirtækinu sem segir sína sögu þegar þensla á vinnumarkaði hefur aukist jafnt og þétt. Við trúum því að ástæðan sé sú að Bláa Lónið sé góður og spennandi vinnustaður sem laði að sér duglegt og öflugt fólk.”
Tekjur Bláa Lónsins héldu áfram að aukast. Rekstrartekjur námu 77,2 milljónum evra eða um 10 milljörðum króna á meðalgengi ársins 2016. Í evrum talið var um 42% tekjuvöxt að ræða. Hagnaður eftir skatta nam 23,5 milljónum evra sem var 49% aukning frá árinu áður.
Fjárhagur félagsins er áfram traustur þrátt fyrir arðgreiðslu á árinu og miklar fjárfestingar í innviðum, en þar vegur þyngst bygging nýs upplifunarsvæðis undir merkjum The Retreat at Blue Lagoon. Á nýju upplifunarsvæði verður að finna nýja heilsulind, hágæða hótel og veitingastaði sem opna í lok árs 2017. Framkvæmdir hafa gengið vel og í samræmi við áætlanir.
Fjöldi starfsmanna í heilu stöðugildi hjá Bláa Lóninu var um 400 að meðaltali á árinu 2016 og jókst um 30% á milli ára. Hjá félaginu starfa nú um 560 manns. Vel hefur gengið að manna stöður hjá fyrirtækinu sem segir sína sögu þegar þensla á vinnumarkaði hefur aukist jafnt og þétt. Við trúum því að ástæðan sé sú að Bláa Lónið sé góður og spennandi vinnustaður sem laði að sér duglegt og öflugt fólk. Starfsandinn er góður og samheldni fólksins hefur lagt grunn að þeim góða árangri sem náðst hefur á undanförnum árum.
Fyrir hönd stjórnar félagsins færi ég öllu starfsfólki og stjórnendum bestu þakkir fyrir frábært starf, oftar en ekki undir miklu álagi sem fylgir þeim öra vexti sem einkennt hefur reksturinn. Mikill einhugur hefur verið meðal starfsmanna, daglegra stjórnenda, stjórnar og hluthafa Bláa Lónsins. Það er von mín að svo verði áfram.
“Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu hefur lagt grunninn að þeirri velmegun sem ríkir nú á Íslandi. Endurreisn íslensks atvinnulífs og þjóðlífs í landinu frá áföllunum árið 2008 er ekki síst ferðaþjónustunni að þakka.”
Á undanförnum árum hefur Bláa Lónið hlotið margháttaðar viðurkenningar fyrir starfsemi sína, auk þess sem forstjóri og stofnandi félagsins, Grímur Sæmundsen, hefur verið heiðraður með ýmsum hætti. Hann hefur verið valinn markaðsmaður ársins hjá ÍMARK, maður ársins hjá Frjálsri verslun og um síðustu áramóti heiðraði Viðskiptablaðið hann með Viðskiptaverðlaunum ársins 2016.
Nýlega bættust svo við Þekkingarverðlaun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem valdi Bláa Lónið þekkingarfyrirtæki ársins. Í umsögn dómnefndar FVH um Bláa Lónið sagði meðal annars:
„Á síðustu árum hefur þekkingarfyrirtæki ársins vaxið hratt og hafa því fylgt nýjar áskoranir sem hafa kallað á þróun nýrra lausna sem krefjast hugkvæmni og þekkingar. Starfsmenn Bláa Lónsins þróuðu t.d. aðgangsstýringarkerfi sem jafnar álag gesta að áfangastaðnum og bætir þar með nýtingu rekstrarfjármuna og mannauðs. Að auki er stunduð öflug vöruþróun á heilsuvörum en fjórir vísindamenn starfa hjá fyrirtækinu við að hámarka verðmætasköpun úr aukaafurðum sem falla til í framleiðslunni, svo sem úr þörungum og kísil sem ætlað er að bæta heilsu manna.”
Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu hefur lagt grunninn að þeirri velmegun sem ríkir nú á Íslandi. Endurreisn íslensks atvinnulífs og þjóðlífs í landinu frá áföllunum árið 2008 er ekki síst ferðaþjónustunni að þakka. Hún hefur lagt grunn að stórbættum lífskjörum fólksins, hagvexti, gjaldeyrissköpun, fjárfestingum og því að atvinnuleysi er nær ekkert í landinu.
Í ljósi þessara staðreynda vekur furðu hve stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn í stjórnsýslu landsins sýna atvinnugreininni mikið fálæti og jafnvel skilningsleysi. Sumir þeirra eru farnir að líta á uppgang ferðaþjónustunnar sem vandamál þegar þeir kenna henni um þá þenslu sem víða gerir vart við sig, en gleyma hvaða atvinnugrein kom samfélaginu á hreyfingu eftir þau áföll sem dundu yfir þjóðina.
Hjá Bláa Lóninu ætlum við ekki að láta þetta trufla starfsemi okkar of mikið. Við tökumst á við viðfangsefnin til að leysa þau eins og gert hefur verið hingað til. Verkin tala og ætlunin er að halda áfram að láta verkin tala.
Við munum áfram fylgjast með þeim ógnunum sem gætu truflað starfsemina því við búum í nábýli við náttúruöfl sem enginn ræður við. Tekist verður á við öll þau verkefni sem við getum ráðið við sjálf og þau leyst á farsælan hátt.