Rannsóknir og þróun
Einstakt dæmi um fjölnýtingu jarðvarmans
Framleiðsla og rannsóknir á virkum efnum Bláa Lónsins, kísil og þörungum, eru á meðal meginverkefna sviðsins. Virk efni Bláa Lónsins, kísill, sölt og þörungar, eru framleidd í hráefnisvinnslu með grænum og sjálfbærum framleiðsluaðferðum. Unnið hefur verið að undirbúningi að aukinni framleiðslugetu hráefnavinnslu Bláa Lónsins. Framleiðslan er jafnframt dæmi um fjölnýtingu jarðvarmans.
Fjölnýtingin hefur vakið áhuga hér heima og erlendis og fjöldi hópa heimsækir Rannsókna- og þróunarsetur Bláa Lónsins til að kynnast þessari hlið starfseminnar. Sviðið vinnur að að fjölbreyttum rannsóknaverkefnum er tengjast vistkerfi Bláa Lónsins. Á meðal verkefnanna eru virknirannsóknir á húðvörum og lífvirknirannsóknir á þörungum Bláa Lónsins.
ISO 9001
Unnið er að innleiðingu á alþjóðlega stjórnunarstaðlinum ISO 9001:2015 með tilliti til ISO 22716:2007 (framleiðsla snyrtivara) fyrir hráefnavinnslu Bláa Lónsins. Markmiðið er að fá vottun samkvæmt alþjóðlega stjórnunarstaðlinum ISO 9001:2015 með tilliti til ISO 22716:2007 (framleiðsla snyrtivara) fyrir hráefnaframleiðsluna.
Áhersla á öflugt vísindastarf
Rannsókna- og þróunarverkefni eru unnin í samstarfi við sérfræðinga á Íslandi og erlendis. Jean Krutmann, húðlæknir og sérfræðingur í áhrifum umhverfis á öldrun húðarinnar, starfar sem rannsóknaráðgjafi hjá fyrirtækinu.
Þá er sérstök vísindanefnd starfandi innan Bláa Lónsins sem er ráðgefandi við rannsóknir, en í henni eru sérfræðingar í húðlækningum og ónæmisfræði.
Tveir doktorsnemar vinna að rannsóknaverkefnum sínum í samstarfi við Bláa Lónið.
Jenna Huld Eysteinsdóttir læknir hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum á virkni psoriasis-meðferðarinnar í Bláa Lóninu og eru þær hluti af doktorsverkefni hennar við læknadeild Háskóla Íslands. Birtar hafa verið þrjár vísindagreinar er byggja á rannsóknum hennar.
Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðingur vinnur að rannsóknum á fjölsykrum úr þörungum Bláa Lónsins og eru þær hluti af doktorsverkefni hennar við lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Nú þegar hefur ein vísindagrein er byggir á rannsóknum hennar verið birt.